Lög Tvíundar

Lög þessi innihalda breytingar samþykktar á lagabreytingafundi 14.05.2021.

I kafli: Félagið

1. GR.

Félagið heitir Tvíund, félag stúdenta í tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík. Á ensku skal félagið nefnast Tviund, Reykjavík University School of Computer Science Students Organization. Aðsetur þess er í Háskólanum í Reykjavík og varnarþing er í Reykjavík.

2. GR.

Tilgangur félagsins er:

 1. Að gæta hagsmuna og velferðar tölvunarfræðistúdenta við Háskólann í Reykjavík.
 2. Að stuðla að mótun tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.
 3. Að stuðla að öflugu félagslífi innan tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

3. GR.

Tilgangi sínum skal félagið ná með því:

 1. Að skapa tengsl við félög tölvunarfræðinga og tölvunarfræðistúdenta hér á landi sem og erlendis.
 2. Að stofna til umræðu um málefni tengd tölvunarfræði.
 3. Að skapa tengsl við fyrirtæki og stofnanir sem starfa á vettvangi sem tengist námi tölvunarfræðinema.
 4. Að standa að reglulegum viðburðum á vegum félagsins.
 5. Að vera tengiliður félagsmanna við tölvunarfræðideild.

4. GR.

Starfstími Tvíundar og reikningsár er á milli aðalfunda.

5. GR.

1.mgr. Allir þeir er stunda nám við tölvunarfræðisvið Háskólans í Reykjavík njóta aðildar að félaginu. Þeir félagsmenn sem kjósa að greiða félagsgjald Tvíundar, njóta aukinna fríðinda umfram aðra félagsmenn.

 1. mgr. Stjórn félagsins skal ákveða upphæð félagsgjalda hverju sinni á aðalfundi. Félagsgjald er greitt einu sinni á ári, venju samkvæmt í byrjun haustannar, fyrir viðkomandi skólaár.
 2. mgr. Öllum nemendum við Háskólann í Reykjavík er frjálst að sækja um að gerast greiðandi félagsmeðlimur Tvíundar. Stjórn Tvíundar metur hverja umsókn fyrir sig og skal henni svarað eigi síðar en 10 virkum dögum eftir að umsókn berst.

II kafli: Stjórn félagsins

6. GR.

Stjórn skal skipuð fimm félagsmönnum; forseta, varaforseta, gjaldkera, hagsmunafulltrúa og skemmtanastjóra.

Varaforseti er jafnframt upplýsingafulltrúi félagsins.

7. GR.

Skipunartími stjórnar er á milli aðalfunda.

8. GR.

Stjórn Tvíundar stýrir málefnum félagsins eftir þeim ákvæðum sem lög þessi segja til um. Stjórn  tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárráðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.

9. GR.

1.mgr.  forseti kemur fram fyrir hönd félagsins innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Forseti hefur prókúru á reikninga Tvíundar. Forseti er tengiliður Tvíundar við Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Forseti stjórnar fundum stjórnar.

 1. mgr.Í fjarveru forseta gegnir varaforseti hlutverki forseta. Í fjarveru forseta og varaforseta skal stjórn velja stjórnarmeðlim til þess að gegna hlutverki forseta. 

3.mgr. Mæti félagsmeðlimur á atburð á vegum Tvíundar íklæddur sjóræningjaskrúða skal forseti hylla viðkomandi opinberlega við fyrsta tækifæri.

10. GR.

Skemmtanastjóri hefur yfirumsjón með viðburðum á vegum Tvíundar. Hann hefur einnig yfirumsjón með skemmtinefnd Tvíundar og er forseti hennar. Skemmtanastjóri er sömuleiðis tengiliður félagsins við skemmtanastjóra annara nemendafélaga innan Háskólans í Reykjavík. 

11. GR.

Varaforseti ritar fundargerðir stjórnarfunda. Upplýsingafulltrúi hefur umsjón með heimasíðu félagsins og hefur umsjá með aðsendum bréfum. Varaforseti skal vera tengiliður Tvíundar við önnur félög tölvunarfræðistúdenta, innlend sem erlend. Varaforseti sér til þess að öll gögn sem snúa að störfum stjórnarinnar séu aðgengileg öllum stjórnarmeðlimum og sér til þess að næsta stjórn fái aðgang að áðurnefndum gögnum. Varaforseti hefur yfirumsjón með Tvíund Production. Varaforseti er jafnframt upplýsingafulltrúi félagsins.

12. GR.

Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins og hefur prókúru á reikninga félagsins. Gjaldkeri undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina áramótauppgjör eigi síðar en fyrir upphaf vorannar ár hvert.

13. GR.

Hlutverk hagsmunafulltrúa er að útvega og halda utan um þau námskeið og fyrirlestra sem haldnir eru á vegum félagsins. Hagsmunafulltrúi skal hafa yfirumsjón með upprifjunarnámskeiðum fyrir lokapróf á hverri önn. Auk þess skal hann vera tengiliður Tvíundar við tölvunarfræðideildina fyrir þau námskeið sem tölvunarfræðideildin stendur fyrir. Hann hefur yfirumsjón með og er tengiliður við hverja þá klúbba sem eru á vegum félagsins. Jafnframt skal hagsmunafulltrúi búa til playlista fyrir hverja prófatíð á kjörtímabili sínu, til að skapa stemningu meðal nemenda og peppa þá almennt fyrir prófin.

14. GR.

1.mgr.  Stjórn skal halda fundi eigi sjaldnar en tvisvar sinnum í mánuði. forseti boðar til stjórnarfundar með að lágmarki viku fyrirvara. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað verði til stjórnarfundar.

2.mgr.  Nemendafulltrúi og nýnemafulltrúi heyra undir hagsmunafulltrúa. Hafa þeir áheyrnar- og seturétt á fundum stjórnar Tvíundar.

15. gr. 

Skemmtunarfulltrúar heyra undir skemmtunarstjóra. Þeir sinna störfum skemmtinefndar eftir þörfum. Einnig sitja þeir í nefnd Tvíund Production.

16. GR.

Stjórn telst ályktunarbær ef meirihluti stjórnarmeðlima sitja fund. Ákvörðun telst lögleg ef hreinn meirihluti stjórnar samþykkir hana.

IV kafli: Félagsmenn

17. GR.

Stjórn félagsins, með undirskriftum 50 félagsmanna, er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu vegna ámælisverðrar háttsemi. Skila þarf skriflegri beiðni til stjórnar þar sem ámælisverð háttsemin er rökstudd á ítarlegan hátt. Með ámælisverðri háttsemi er átt við sem dæmi hegðun félagsmanns sem verður félaginu til skammar á viðburðum félagsins, eða annars konar hegðun sem þykir ósæmandi. Hafi undirskriftum ekki verið náð er stjórn þó heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu sé rökstuddur grunur um lögbrot af hans hálfu á viðburðum félagsins.

18. GR.

Stjórn félagsins er heimilt að útiloka félagsmeðlim frá allt að þremur viðburðum tímabundið vegna ámælisverðrar háttsemi meti hún tilefni til, sbr. 16. gr. laganna. Stjórn tekur ákvörðun um slíkt. Stjórninni er heimilt að gera slíkt hið sama ef félagsmenn mæta á viðburði félagsins þar sem skráningar er krafist án þess að hafa gert slíkt. Sama á við um félagsmenn sem skrá sig á viðburði félagsins en mæta eigi. 

19. GR.

Stjórn félagsins er heimilt að útnefna heiðursfélaga Tvíundar meti hún tilefni til.

20. GR.

Stjórn félagsins er heimilt að útnefna sérlega hjálp- og áhugasama félagsmenn sem Verndara Tvíundar á hverju starfsári. Stjórn getur haft samband við Verndara til að fá upplýsingar eða hjálp við einstaka viðburði eða verkefni. Hver stjórn skal halda Verndarafögnuð einu sinni á ári.

21. GR.

Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar til að ræða málefni Tvíundar við félagsmenn. forseti Tvíundar opnar fundinn og tilnefnir fundarstjóra sem stýrir umræðum. Stjórn er skylt að boða til almenns félagsfundar ef fimmtungur félagsmanna óskar þess með skriflegri beiðni til stjórnar félagsins. Félagsfundir skulu auglýstir tryggilega með tveggja daga fyrirvara hið minnsta.

22. GR.

1.mgr. Komi fram á félagsfundi tillaga um vantraust á stjórn Tvíundar skal fundarstjóri víkja sæti, sé hann stjórnarmaður, og fundurinn kjósa nýjan fundarstjóra. Fundarstjóri ásamt einum fulltrúa tillöguflytjenda skal láta fara fram atkvæðagreiðslu um tillöguna. Hljóti tillagan í þeirra atkvæðagreiðslu fylgi 2/3 atkvæðabærra fundarmanna, skal efna til atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna undir stjórn fundarstjóra og ræður í henni einfaldur meirihluti atkvæða.

2.mgr.  Hljóti vantrauststillagan brautargengi, skal fundastjóri sjá um nýja stjórnarkosningu, sem fara skal fram líkt og vorkosningar eftir því sem það á við. Fundarstjóra skal heimilt að kveða félagsmenn með sér til starfa. Þessari kosningu skal vera lokið innan viku frá samþykkt vantrausttillögunnar. Meirihluti atkvæði ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar.

 

III. kafli: Aðalfundur og kosningar

23. GR.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síður en 10 virkum dögum eftir að ný stjórn hefur verið kjörin. Til fundarins skal boða með auglýsingu á tryggilegan hátt, með viku fyrirvara hið minnsta, og er hann þá lögmætur. Tillaga hlýtur samþykki ef a.m.k. helmingur fundarmanna greiðir henni atkvæði.

24. GR.

Mál þessi skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

 1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum.
 2. Stjórn félagsins leggur fram ársreikninga félagsins.
 3. Tilkynnt skal um úrslit kosninga.
 4. Lagabreytingar
 5. Ný stjórn tekur við.
 6. Önnur mál.

25. GR.

1.mgr. Kosningar Tvíundar fara fram eigi síður en 10 dögum fyrir síðasta kennsludag.

2.mgr. Stjórn Tvíundar getur falið kjörstjórn SFHR framkvæmd kosninga.

26. GR.

1.mgr.  Kosningarétt og kjörgengi hafa allir félagsmenn. Framboð skulu vera skrifleg og undirrituð eða staðfest í gegnum skólanetfang frambjóðanda. Auglýsa skal eftir framboðum minnst 20 dögum fyrir boðaðar kosningar. Framboðsfrestur er 10 dagar fyrir boðaðar kosningar. Kosið er í embætti stjórnar og skemmtinefnd.

2.mgr. Stjórn Tvíundar boðar kosningar til embættis nýnemafulltrúa og nemendafulltrúa á haustönn eigi síður en septemberlok, samhliða því skal auglýsa eftir umsóknum í aðrar nefndir tvíundar.

 1. mgr. Kosningarétt og kjörgengi til framboðs nýnemafulltrúa hafa einungis félagsmenn sem eru nýnemar.
 2. mgr. Kosningarétt og kjörgengi til framboðs nemendafulltrúa hafa allir félagsmenn, að undanskildum nýnemum.
 3. mgr. Kosningarétt og kjörgengi til framboðs fjarnemafulltrúa hafa einungis félagsmenn sem eru fjarnemar.
 4. mgr. Ef frambjóðandi er einn í framboði þarf hann hreinan meirihluta greiddra atkvæða til að hljóta kosningu, en að öðru leyti hlýtur frambjóðandi kosningu með einföldum meirihluta greiddra atkvæða.

27. GR.

1.mgr. Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í öll embætti, skal nýkjörin stjórn auglýsa eftir framboðum í laus embætti og boða til aukakosninga, eigi síðar en 10 dögum eftir aðalfund. Skal þá framkvæmd kosninganna fara eftir 1. mgr. 25. gr. laganna.

2.mgr.  Hafi, eftir þessa síðari umferð kosninga, ekki hlotist lögleg kosning í öll embætti, skal nýkjörin stjórn skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi.

3.mgr.  Hljótist ekki kosning í allar stöður í skemmtinefnd, nýnemafulltrúa, nemendafulltrúa og fjarnemafulltrúa er stjórn heimilt að skipa í lausar stöður.

 

28. GR.

Ef einhver stjórnarmeðlimur þarf að segja af sér eða er vikið úr stjórn skal stjórn Tvíundar boða til kosninga í viðkomandi embætti eigi síður en tveimur vikum síðar. Hafi ekki hlotist lögleg kosning í viðkomandi embætti, skal stjórn Tvíundar skipa í viðkomandi embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi.

V. kafli: Nefndir

29. GR.

Hagsmunanefnd Tvíundar saman stendur af hagsmunafulltrúa, nemendafulltrúa, nýnemafulltrúa og fjarnemafulltrúa. Hlutverk nefndarinnar er hagsmunagæsla nemenda við tölvunarfræðideild. Hagsmunanefnd ber að upplýsa stjórn Tvíundar um málefni nefndarinnar á stjórnarfundum.

30.GR.

Skemmtinefnd hefur yfirumsjón með viðburðum á vegum Tvíundar. Skemmtinefnd skal skipuð þremur aðilum; skemmtanastjóra og tveimur skemmtanafulltrúum.

31.GR.

1.mgr. HR-ings nefnd saman stendur af Tvíund, viðskiptavinum og öðrum er hafa áhuga á að gera HR-inginn að veruleika. Skal að minnsta kosti einn stjórnarmeðlimur úr Tvíund eiga sæti í nefndinni.

2.mgr. Nefndin saman stendur af fjórum aðilum. forseti nefndarinnar skal eiga sæti í stjórn Tvíundar og er tengiliður við stjórn. Ber hann fjárhagslega ábyrgð, ásamt stjórn Tvíundar. Stjórn skal úthluta verkefnum sín á milli og sjá til þess að þau séu öll uppfyllt. Nefndarmeðlimur getur að hámarki verið ábyrgur fyrir tveim hlutverkum en getur óskað eftir aðstoð utan nefndar en á sína ábyrgð.

 1. mgr. Starfsár nefndarinnar hefst ekki seinna en mánuði eftir HR-ing og líkur þegar næsti HR-ingur er búinn. Heldur forseti sínu sæti en tekur að sér lærling úr nýju stjórninni sem síðar tekur við forsetaembættinu og verða þá tímbundið nefndarmeðlimir fimm. forseti skal þó sinna starfi sínu a.m.k. í viku fram yfir næsta HR-ing. Eftir hvern HR-ing skal sitjandi stjórn Tvíundar auglýsa eftir fólki í nefndina og í kjölfarið verða haldin viðtöl sem stjórnarmeðlimir og nefndarmeðlimir sjá um. Verður ný stjórn kjörin. Allir fráfarandi meðlimir nefndarinnar skulu skrifa retrospect.

4.mgr. Nefndin skal hittast a.m.k. tvisvar sinnum fyrir HR-inginn. Skal seinna skiptið vera í síðasta lagi þremur mánuðum fyrir mót. Skipulag mótsins skal hefjast a.m.k. sex mánuðum fyrir mót þ.e. í janúar ár hvert og skal nefndin vera fullmönnuð. Fjárhagsáætlun skal liggja fyrir í mars ár hvert.

5.mgr. Hagsmunir nefndarinnar eru í höndum stjórnar Tvíundar varðandi ákvarðanir tengdar fjármagni. Tvíund skal leggja 10% af ágóða HR-ingsins í sjóð sem er ætlað að betrumbæta HR-inginn milli ára. Sjóður þessi er einungis ætlaður til kaupa á búnaði fyrir HR-inginn.

6.mgr. Nefndinni er heimilt að sækja um fjárstyrki frá Tvíund

7.mgr. Samþykki stjórnar Tvíundar þarf fyrir því fjármagni úr sjóðnum, hvort sem það er vegna tækjakaupa eða fjárstyrkja.

8.mgr. Nefndin telst ályktunarbær ef meirihluti nefndarmeðlima situr fund. Ákvörðun nefndar telst gild ef hreinn meirihluti samþykkir hana.

32.GR.

Nýnemafulltrúi er tengiliður félagsmanna sem eru nýnemar við stjórn félagsins.

33.GR.

Nemendafulltrúi er trúnaðarmaður allra félagsmanna og er tengiliður þeirra við stjórn félagsins.

34.GR.

Fulltrúi erlendra nema er með áheyrnarrétt á fundum og er tengiliður stjórnar við erlenda nema og skiptinema við Háskólann í Reykjavík. Fulltrúinn er kosinn inn af stjórn Tvíundar eftir viðtöl. Ávallt skal leitast eftir því að staða fulltrúa erlendra nema sé mönnuð á bæði haust- og vorönn.

35. GR.

1.mgr. Tvíund Production skal skipuð þremur aðilum, varaforseta og skemmtunarfulltrúum . Varaforseti skal vera í forsvari fyrir Tvíund Production. Tvíund Production skal sjá um að framleiða, eða sjá til þess að framleitt sé, allt það margmiðlunarefni sem Tvíund þarfnast t.a.m. veggspjöld, kynningarefni, ljósmyndir og myndbönd. Tvíund Production er heimilt að skipa félagsmenn í ákveðin verkefni á sínum vegum.

 1. mgr. Stjórn félagsins skipar í nefndina en félagsmönnum skal gefinn kostur á því að sækja skriflega um stöðu í nefndina til stjórnar í byrjun haustannar.

36. GR.

1.mgr. Félagsmönnum er frjálst að stofna klúbba innan Tvíundar með samþykki stjórnar. Klúbburinn skal skipa ábyrgðarmann klúbbsins.

 1. mgr. Klúbbar heyra undir lög Tvíundar og siðareglur skólans. Stjórn Tvíundar áskilur sér rétt til þess að leysa upp starfsemi klúbbsins.
 2. mgr. Allir sem eru í tölvunarfræði eða hafa verið í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík er heimilt að sækja viðburði klúbba sem heyra undir Tvíund.
 3. mgr. Klúbbar geta sótt um styrki hjá Tvíund. Umsókn verður skoðuð á næsta stjórnarfundi og verði hún samþykkt er sá styrkur einungis ætlaður fyrir greiðandi meðlimi Tvíundar.

VII. kafli: Lagabreytingar

 

36. GR.

 1. mgr. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstökum fundi sem skal boðaður með viku fyrirvara, hið minnsta. Þurfa 2/3 hlutar fundarmanna að greiða atkvæði með lagabreytingunni.
 2. mgr. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund eða lagabreytingafund. Tillögur til lagabreytinga skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingarfundi.
 3. mgr. Stjórn er skylt að boða til lagabreytingarfundar ef tíund félagsmanna óskar þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt á að leggja til lagabreytingar.

37. GR.

Lög þessi skulu ætíð birt á heimasíðu Tvíundar. Einnig skal geyma eintak af lögum þessum á skrifstofu félagsins.

38. GR.

Lög þessi öðlast þegar gildi.